Empire kvikmyndavefurinn breski greinir frá því að ný heimildarmynd sé nú í vinnslu um skoska knattspyrnustjórann Alex Ferguson, sem stýrði Manchester United um árabil, og vann fjölda titla með liðinu.
Myndin, sem enn hefur ekki fengið nafn, mun innihalda náin samtöl við Ferguson sjálfan, fjölskyldu hans og samstarfsmenn, enda er leikstjóri myndarinnar enginn annar en sonur hans, Jason Ferguson. Myndin hefur verið í undirbúningi í tvö ár.
Fjallað verður um ævi Ferguson, allt frá því hann var ungur drengur að alast upp á skipasmíðasvæðinu Govan í Glasgow, og allt fram að tíma hans með Manchester United, en ferill hans þar var afar farsæll. Þá verður í myndinni fjallað um lífshættulegt heilablóðfall sem hann fékk fyrr á árinu.
Alex Ferguson starfaði hjá United í 26 ár, og vann 38 titla með liðinu, þar á meðal vann hann ensku deildarkeppnina 13 sinnum, tvo bikartitla, og tvisvar vann hann Meistaradeild Evrópu með liðinu.
Sonur hans hefur tekið upp meira en 60 klukkustunda hjóðupptökur af viðtölum við hina og þessa, en tökur á kvikmyndinni hefjast í október nk. Meðframleiðendur eru DNA Films og Searching For Sugar Man framleiðslufyrirtækið Passion Pictures. „Það hefur verið komið að máli við mig mörgum sinnum í gegnum árin, varðandi gerð kvikmyndar um ævi mína, en ég var ekki tilbúinn til þess fyrr en nú,“ segir Alex Ferguson í yfirlýsingu.
„Þegar fólkið sem stendur á bakvið þessa kvikmynd var kynnt fyrir mér, og eftir að við fórum yfir hugmyndir þeirra varðandi myndina, þá sannfærðist ég um að ég væri í góðum höndum. Ferlið hefur hingað til verið mjög náttúrulegt og ánægjulegt, og ég hlakka til að gera bestu mynd sem mögulegt er að gera.“
Enginn frumsýningardagur hefur enn verið ákveðinn.