UPPFÆRT: Söfnunin gengur vonum framar. Búið er að „leigja“ út fyrir 100.000 kr. eða 200 útleigur. Stefnt er að því að ná 500 útleigum.
Vegna brunans í Laugarásvideói hafa stjórnendur á Kvikmyndir.is ákveðið að efna til fjáröflunar til styrktar uppbyggingar DVD safnsins fræga, sem eyðilagðist nærri allt í brunanum. Þetta er gert til að sýna eigendum og starfsfólki leigunnar þakklæti fyrir þá góðu þjónustu sem það hefur veitt okkur öllum og til að styðja við bakið á þeim á þessum erfiðu tímum. Það er ljóst að safnið var ekki tryggt og því þarf Gunnar, eigandi leigunnar, að reiða sig á aðrar og oft óhefðbundnar leiðir til að opna aftur. Því biðjum við þá sem sjá sér það fært að leggja 500-1000 kr inn á reikning sem var stofnaður fyrir þessa söfnun 117-05-61986 kt. 520597-2049.
Eins og kunnugt er var þetta stærsta DVD safn á landinu þar sem hægt var að finna gamlar og nýjar myndir, óþekktar sem þekktar, amerískar jafnt sem evrópskar og svona mætti lengi telja. Myndirnar skiptu tugþúsundum og því ljóst að tjónið veltur á hundruðum milljóna króna. Þetta var af mörgum talin besta leiga norðurlandanna og þótt víðar væri leitað. Það verður ekki hjá því komist að minnast á íbúa hússins sem lágu í fasta svefni fyrir ofan leiguna en til allrar hamingju fór mun betur en á horfðist og enginn slasaðist í brunanum. Við látum fylgja með örfáar ljósmyndir sem teknar voru eftir brunann.
Mörg hulstrin hreinlega bráðnuðu saman í hitanum.
Hulstrin lengst frá innganginum skemmdust ekki mikið.
Þarna er ansi drungalegt yfir að líta.
Eysteinn og Tómas kíktu við.
Margar ófáanlegar VHS spólur töpuðust.
Það var líka gos og annað góðgæti sem skemmdist.
Fleiri myndir á www.facebook.com/laugarasvideo

