Snowpiercer stytt um 20 mínútur

Snowpiercer, heimsendatryllir leikstjórans Bong Joon-ho, þar sem Tómas Lemarquis fer með eitt af hlutverkunum, verður stytt um 20 mínútur áður en hún fer í sýningar í Bandaríkjunum, samkvæmt frétt Screenrant.com vefsíðunnar.

snowpiercer-picture

Myndin er að setja met í miðasölunni í Suður Kóreu þessa dagana, en 4 milljónir miða hafa selst á einni viku, sem er betri árangur en bæði stórmyndin Iron Man 3 og Transformers: Dark of the Moon náðu á jafn löngum tíma.

Svo virðist sem miðasala fari vaxandi á myndina, hvort sem það er vegna þess að myndin er að spyrjast vel út eða að fólk sé að sjá hana oftar en einu sinni.

Gagnrýnendur hafa tekið myndinni vel, en hún fjallar um síðustu dreggjar mannkynsins sem tóra í risastórri lest sem er á stanslausu ferðalagi um ísi lagða veröldina.

Eins og fyrr sagði þá hefur kvikmyndafyrirtækið The Weinstein Company ákveðið að stytta myndina um 20 mínútur fyrir dreifingu í Bandaríkjunum. Senurnar sem sagt er að verði fjarlægðar eru aðallega þær sem fara nánar ofaní bakgrunn helstu persóna og þróun þeirra. Með því að klippa þessar senur burtu verður Snowpiercer harðsoðnari spennumynd en ella, og minna drama.

Ekki er búið að ákveða hvenær myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum.

 

Stikk: