Snilligáfur og Hollywood-sprengjur. Gott bíó

Sherlock Holmes: A Game of Shadows er ofsalega dæmigerð framhaldsmynd að því leyti að hún fylgir þeirri vinsælu stefnu að gefa áhorfendum sínum meira af því sama, bara í stærri skömmtum. Reyndar þarf það ekki alltaf að vera slæmur hlutur, og í tilfelli þessarar myndar fáum við meira af því góða. Það er vegna þess að Guy Ritchie hefur heilmikið blómstrað sem leikstjóri einungis á undanförnum árum og heldur betur sett sinn eigin stimpil á 124 ára gamalt fyrirbæri. Og með þessa tvo aðalleikara, sem einnig brennimerkja þekkta karaktera með sínum eigin einkennum, er voða erfitt að kvarta. Það eru nokkrir hlutir sem virkuðu betur í fyrri myndinni, en almennt séð er framhaldið sterkari, öruggari og fínpússaðri bíómynd. Ekki mikið betri, bara örlítið. Það eina sem maður er beðinn um að fyrirgefa er að það er aðeins meiri Hollywood-keimur af þessari.

Fyrri myndin var kannski stúdíómynd en hún var undarlega „egdy,“ trú uppruna sínum og stýrðist af snjöllu, skemmtilegu handriti og hátt í ómótstæðilegum samleik hjá Robert Downey Jr. og Jude Law. Ritchie skreytti þetta síðan með frábærum stíl sem blandaði módernískri kvikmyndagerð fullkomlega saman við períódulúkkið á tímabili sögunnar. Það sást að minnsta kosti að leikstjórinn hafði smitandi áhuga á því sem hann var að gera, og hefði myndin ekki dottið alveg á sjálfsstýringu á síðasta korterinu með heldur bragðdaufum hasar og ófullnægjandi endi, þá myndi ég kalla hana frábæra. Hasarinn var nefnilega í flestum tilfellum ofsalega skemmtilegur og spennandi. Líka sparlega notaður. Það kom mér mest á óvart.

A Game of Shadows er löðrandi í hasar, og þá á miklu stærri skala líka. Það mætti orða það þannig að serían sé dálítið byrjuð að selja sig út með þessu, en ég myndi fullyrða það sjálfur ef öll myndin væri ekki svona vel unnin og tryllt skemmtileg. Ritchie gætir þess að það sé einhvers staðar söguþráður undir öllum hávaðanum og ekki nóg með það, heldur sér hann til þess að bæta upp fyrir mörg af mistökunum í fyrri myndinni. Reyndar gerir hann ný, aðeins öðruvísi, mistök í kjölfarið en við komum að því rétt strax.

Það sem gerir þessa mynd betri er aðeins einbeittara flæði, betri skúrkur og miklu meira fullnægjandi endir. Lokauppgjörið hjá hetjunni og illmenninu breytist ekki í hefðbundin slagsmál heldur er margfalt sniðugri og skemmtilegri leið notuð til þess að fást við það. Ekki bara var það hressandi vegna þess að þetta verður fljótlega að einhverjum albesta hluta sögunnar, heldur hefði myndin alveg skitið upp á bak og svikið uppruna sinn gjörsamlega ef endirinn hefði verið pakkaður með fleiri sprengjum og byssuhvellum. Það er nefnilega eitthvað sem myndina skortir ekki nú þegar, augljóslega.

Það sem ég sakna mest úr forveranum er hvernig samspilið hjá Downey og Law fékk meira rými til þess að anda á milli sena, en það fylgdi því reyndar að söguþráðurinn þar var soddan (skipulögð) óreiða. Þessir menn spila óaðfinnanlega á móti hvor öðrum enda er brómantíkin hjá þeim (sem angar af samkynhneigðum undirtónum) sama og áþreifanleg. Þeir smella líka í sitthvort hlutverkið eins og það hafi ekki liðið dagur frá því að þeir gerðu hina myndina. Í þessari lotu hefur söguþráðurinn þjappast betur og fókusinn meira stilltur á Holmes og illmennið, Professor Moriarty, í staðinn fyrir félaganna tvo. Alls ekki slæmt, bara öðruvísi – en öðruvísi er ekki alltaf slæmt, sérstaklega ekki í framhaldsmyndum.

Mér finnst skrítið samt hvað Rachel McAdams fær óhuggulega lítinn skjátíma. Hún gerði voðalega lítið í fyrri myndinni annað en að vera til staðar svo sagan gæti stillt upp Moriarty fyrir þessa mynd. Ekki það að leikkonan hafi staðið sig eitthvað stórfenglega, en maður byrjar fljótlega að sakna hressleika hennar þegar maður sér hvað Noomi Rapace er voðalega litlaus í samanburði. Allir bíónördar vita að Rapace getur verið frábær leikkona, en hér virðist hún bara ósköp áhugalaus. Hún spilar stóran þátt í sögunni (þannig séð) en handritið gerir ekki margt spennandi með karakterinn hennar og hún sjálf gerir lítið til þess að skara fram úr.

Af nýju andlitunum er Rapace eina manneskjan sem virðist ekkert taka rulluna sína alvarlega. Stephen Fry er annars dásamleg lítil viðbót sem Mycroft Holmes, bróðir Sherlock, og Jared Harris lætur fljótt fara vel um sig í hlutverki illmennisins. Harris er góður sem Moriarty en ekki alveg eins ógleymanlegur og snillingurinn hefði átt að vera. Hann er nú jafningi Holmes og það kallar á ansi sterka nærveru. Kaldhæðnislega tók Mark Strong mjög máttlaust illmenni í síðustu mynd og lífgaði eins mikið upp á það og hann gat. Hér er það næstum því öfugt. Ég hefði ekkert grátið það að fá einhvern annan í staðinn.

Myndin rennur samt á svo ljúfum hraða og sprettir svoleiðis á milli atriða að hún dettur aldrei niður í dauðan kafla. Leikstjórinn fær extra hrós fyrir að betrumbæta sig og halda hugmyndafluginu virku í stað þess að grípa seðlana og gera örugga Hollywood-framhaldið sem hann hefði léttilega getað gert. A Game of Shadows hefur nóg af orku, húmor og smáatriðum í plottinu til þess að halda þér í sætinu í tvo tíma, og mest allt sem hún gerir stendur hún sig bara massavel í.

Ef þú ert Holmes-aðdáandi og mótmælir hasarnum, töffaraskapnum og slow-mo æðinu, þá hefurðu alltaf 50 aðrar túlkanir til þess að snúa þér að (meðal annars þessari nýju frá BBC – það eru frábærir þættir). Þessi Holmes er hér til að sýna okkur að hægt sé að njóta góðrar mysteríu með því að hafa heilann vakandi og brenglaðan þorsta fyrir stílísku ofbeldi á sama tíma. Leyfið honum að skemmta ykkur.

PS. Músíkin er ennþá geggjuð! Þemalagið er lengi að hverfa úr skammtímaminninu.

(8/10)