Suicide Squad leikarinn Will Smith lýsti því yfir í nýju viðtali á Ítalíu að hann sé aðdáandi ítalska knattspyrnuliðsins Roma, en áður hafði hann lýst ást sinni á enska liðinu Manchester United.
Smith var á Ítalíu á dögunum að kynna Suicide Squad og sagði þá hvatningarorðin Forza Roma í spurningatíma með blaðamönnum, sem hentu þetta á lofti og spurðu hann nánar út í hvað hann meinti: „Er ég aðdáandi Roma? Algjörlega! Þetta var leyndarmál – þið létuð mig uppljóstra leyndarmálinu mínu!“ sagði Smith.
Í janúar sl. sagðist Smith vera aðdáandi enska liðsins Manchester United. Hann hefði farið á leik þremur árum fyrr og hrifist. Hann sagði reyndar í sama viðtali að hann væri almennt meira fyrir körfubolta en fótbolta, en hann er þó klárlega með uppáhaldsliðin sín á hreinu.