Eitt helsta markmiðið við tökur uppvakningamyndarinnar World War Z hefur verið að halda hlutunum eins raunverulegum og unnt er, en ætli það hafi farið úr böndunum? Raunveruleg SWAT lögregla var kölluð á flugvöll í Búdapest í morgun vegna grunnsemdar um innflutning á raunverulegum skotvopnum fyrir World War Z, sem reyndist vera satt. 85 virk skotvopn(rifflar að mestu leyti) voru gerð upptæk og eru sögð vera ólögleg í Ungverjalandi, en allt bendir til þess að þessir „leikmunir“ voru ætlaðir fyrir tökur World War Z.
Hadju Janos og Zsolt Bodnar, stjórnendur hriðjuverkarannsóknadeildar Ungversku lögreglunnar greindu frá: „Í morgun [kom] einkaflugvél með pakka af byssum frá fyrirtæki til einstaklings [í Búdapest]. Byssur sem þessar er ólöglegt að flytja á milli, jafnvel ef þær áttu að vera notaðar sem leikmunir, sem ég vona að sé ekki satt.“ Vitni atburðarins er nú í yfirheyrslu, en ekkert hefur heyrst frá framleiðendum myndarinnar að þessu sinni.
Stórmyndin World War Z er væntanleg jólin 2012 með Brad Pitt í aðalhutverki sem fulltrúi Sameinuðu þjóðanna sem yfirheyrir eftirlifendur uppvakningastyrjaldar. Leikstjóri myndarinnar er Marc Forster(Finding Neverland og Quantum of Solace) og byggist myndin á samnefndri bók eftir metsöluhöfundinn Max Brooks. Myndin hefur þó gengið ansi illa í framleiðslu þar sem hún er komin fram yfir upprunalega kostnað sinn og framleiðslutíma.