Nýjasta mynd leikarans Bradley Cooper, sem þekktur er fyrir myndir eins og The Hangover 1 og 2, Silver Linings Playbook, var frumsýnd hér á landi um helgina.
Nýlega tók Empire kvikmyndablaðið viðtal við Cooper í tilefni af útkomu myndarinnar og í viðtalinu, sem er hér fyrir neðan, er Cooper spurður hvort hann sé ekki örugglega búinn að sjá The Hunger Games, sem meðleikkona hans í Silver Linings Playbook, Jennifer Lawrence, leikur í. Einnig ræðir hann um vandræðaleg augnablik þegar leikstjórinn David O. Russell skammar hann fyrir að herma eftir Robert De Niro á tökustað, en De Niro leikur pabba hans í Silver Linings Playbook.
Silver Linings Playbook er byggð á samnefndri bók eftir Matthew Quick sem kom út árið 2008 og náði miklum vinsældum. Pat hefur tapað öllu; konunni, húsinu, bílnum og vinnunni. Eftir að hafa eytt átta mánuðum á stofnun fyrir fólk sem á við geðraskanir að stríða flytur hann heim til foreldra sinna, staðráðinn í að hefja nýtt líf. En hugmyndir Pats um sjálfan sig, lífið, tilveruna og framtíðina eru svo sérkennilegar að ekki einu sinni hann sjálfur botnar alltaf í þeim. Hann er til dæmis haldinn þeirri ranghugmynd að hann geti unnið aftur ástir eiginkonu sinnar sem hefur fengið sett á hann nálgunarbann og vill ekkert af honum vita. Dag einn er Pat kynntur fyrir konu að nafni Tiffany en hún er á ekki ósvipaðri línu og hann sjálfur, jafnvel enn skrýtnari ef eitthvað er. Á milli þeirra Pats og Tiffany þróast síðan stórsniðugt og sérstakt samband …