Sjáðu fyrstu myndirnar úr Dune

Heimsfræg vísindaskáldsaga Franks Herbert öðlast nýtt líf þar sem einvalalið leikara ræður ríkjum. Áform eru um að framleiða tvær myndir upp úr doðranti Herbert og lendir sú fyrri í kvikmyndahúsum rétt fyrir jól, að öllu óbreyttu. Áhorfendur gætu átt von á því að myndinni verði frestað í ljósi ástands síðustu vikna en það hefur ekki enn verið staðfest.

Það er fransk-kanadíski fagmaðurinn Denis Villeneuve sem situr við stjórnvölinn, en hann hefur gert garðinn frægan með kvikmyndunum Prisoners, Sicario, Arrival og Blade Runner 2049. Þetta ætti að vera í fínum höndum, en á meðal leikara eru Tomothée Chalamet, Rebecca Ferguson, Oscar Isaac, Josh Brolin, Stellan Skarsgård, Zendaya, Jason Momoa, Charlotte Rampling og Javier Bardem.

Nýverið birti tímaritið Vanity Fair fyrstu ljósmyndirnar úr þessari tilvonandi epík og má sjá þessar myndir hér að neðan.