Schwarzenegger ekki með í Expendables 4, nema Sly sé með líka

Hasarhetjan Arnold Schwarznegger segir í samtali við vef Entertainment Weekly að hann muni ekki leika í hasarmyndinni Expendables 4, nema Sylvester Stallone, Sly, aðalsprautan á bakvið myndaseríuna, verði með. Fregnir herma að Stallone muni ekki leika í fleiri Expendables myndum.

„Það er ekki um neina Expendables mynd að ræða án Sly,“ segir Terminator hetjan. „Ég myndi aldrei leika í svona mynd án hans.“

Á föstudaginn síðasta staðfesti talsmaður leikarans við Entertainment Weekly, að Stallone væri hættur þátttöku í myndinni þar sem hann og forstjóri framleiðslufyrirtækisins Nu Image/Millennium, Avi Lerner, hafi ekki getað komið sér saman um hver ætti að leikstýra, skrifa handrit, og eitt og annað fleira varðandi myndina.

Auk þess að leika málaliðann og leiðtoga Expendables flokksins, Barney Ross, þá var Stallone einn handritshöfunda fyrstu þriggja myndanna, og leikstýrði fyrstu myndinni, The Expendables frá árinu 2010.

Scharzenegger lék Trench í fyrstu þremur myndunum, en segir að hann viti lítið um fjórðu myndina sem er í burðarliðnum: „Ég hef ekki séð handritið; Ég veit í raun ekki hvort að það sé til handrit, jafnvel þó þeir vilji taka myndina upp í ágúst, eins og þeir eru vanir,“ sagði Schwarzenegger.

En þó svo að Stallone verði með í myndinni, þá ítrekar Schwarzenegger að hann muni ekki leika í myndinni nema persóna hans sé nógu vel mótuð, en hann var ekki fyllilega sáttur með persónuna í The Expendables 3 frá árinu 2014.

„Þú veist, mér fannst fyrsta og önnur myndin frábær,“ segir hann. „En sú þriðja, þá fannst mér persóna mín ekki nógu vel skrifuð. Auk þess var þáttur Trench í myndinni ekki nógu góður, að mínu mati. Kannski eru aðrir ekki sammála mér. En mér fannst ég ekkert hafa að segja í myndinni. Ég elska seríuna samt, og finnst hún stórkostleg. Sly er með góðar hugmyndir, og ég held að ef þeir skrifa gott handrit, þar sem persóna mín er vel mótuð, þá verð ég með. Ef ekki, þá segi ég pass.“

Nýjasta mynd Schwarzenegger, Aftermath, verður frumsýnd nú á föstudaginn. Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: