Þó gagnrýnendur hafi ekki verið á einu máli um gæði nýju Adam Sandler og Jennifer Aniston myndarinnar Murder Mystery, sem nýlega var frumsýnd á Netflix, þá tóku áhorfendur kvikmyndinni vel, eins og sést best á því að myndin hefur nú sett nýtt áhorfsemet á streymisveitunni.
Myndin, sem frumsýnd var 14. júní sl. fékk 30,9 milljón áhorf á fyrstu þremur dögunum sem hún var í boði.
Samkvæmt upplýsingum frá Netflix horfðu 13,3 milljónir á myndina í Bandaríkjunum, en áhorfendur utan Bandaríkjanna voru 17,5 milljónir.
Murder Mystery er nýjasta kvikmyndin af mörgum sem Adam Sandler hefur samið um að gera fyrir Netflix. Velgengni myndarinnar er einnig til marks um að hinn 52 ára gamli Sandler, er gríðar vinsæll. Síðan hann hóf samstarfið við Netflix hefur verið horft á efni frá Sandler í hálfan milljarð klukkustunda.