Sandler og Barrymore rómantísk á ný?

Kvikmyndatímaritið Variety segir frá því á vefsíðu sinni að gamanleikarinn Adam Sandler hafi hug á því að leika í nýrri rómantískri gamanmynd fyrir Warner Bros kvikmyndaverið við hlið meðleikkonu sinnar úr 50 First Dates, Drew Barrymore.

Myndin á að fjalla um par sem endar saman eftir misheppnað blint stefnumót, ásamt börnum þeirra úr fyrra hjónabandi.

Sandler á sem sagt að leika annan aðilann og heimildir blaðsins herma að Barrymore sé líkleg til að leika hinn helming parsins, þó enn sé ekki búið að skrifa undir neina samninga.

Áður en Sandler byrjar á þessari mynd ætlar hann þó að klára framhaldið af Grown Ups, Grown Ups 2, en sú mynd fer í framleiðslu í maí nk., þó enn eigi eftir að ráða leikstjóra fyrir verkefnið.

Þó að Adam Sandler geri ekki margar rómantískar gamanmyndir, þá hafa þær yfirleitt reynst mjög vinsælar. Just Go With It þénaði meira en 215 milljónir Bandaríkjadala um heim allan og 50 First Dates og The Wedding Singer slógu báðar í gegn.

Langar þig að sjá nýja gamanmynd með Sandler og Barrymore saman?