Þessi mynd, sem ég kýs stundum að kalla Bandarískir karlar sem hata konur, skildi eftir mjög spes eftirbragð og fór heilinn á mér eiginlega í gegnum alls konar ólíkar tilfinningar á meðan ég horfði á hana. Svona súrrealísk blanda af aðdáun, spennu, vonbrigðum, gleði, hrifningu og mjög sterku „déjà vu“ kasti. Sá ég vel unna kvikmynd eftir einn af mínum uppáhaldsleikstjórum? Sannarlega! Var hún alveg eins og frummyndin? Já og nei. Er hún þess virði að horfa á? Ekki spurning! Var þetta tilgangslaus endurgerð? Já, svona frekar.
Aðeins Bandaríkjamenn í Hollywood-iðnaðinum með lykt af öfundsýki og hugmyndaleysi myndu íhuga það að búa til sína eigin útgáfu af mynd sem er ekki orðin þriggja ára gömul, en fólk þarf að athuga það að þetta er ekki endurgerð á sænskri sakamálamynd, heldur amerísk aðlögun á þekktri spennusögu. Mér finnst reyndar ekkert að því að sjá útgáfu af þessari sögu sem er talin vera nær bókinni, en það versta er að sænska myndin gerði svo marga hluti rétt að það er varla hægt að gera aðra tilraun með svona stuttu millibili án þess að líta út fyrir að gera margt af því sama aftur. Þar að auki var Noomi Rapace svo góð í einu aðalhlutverkinu að það leit út fyrir að vera barnaleg þrjóska af einhverri annarri leikkonu að ætla að fylla í sömu spor.
Reyndar hef ég nú verið voða volgur gagnvart Millenium-bíóþríleiknum. Fyrsta myndin heppnaðist afskaplega vel þó svo að hún hafi verið pökkuð litlum göllum (sem aðallega tengdust uppsetningu sögunnar). Hinar tvær myndirnar voru miklu meira óspennandi, óvandaðri (enda sjónvarpsmyndir, af einhverjum ástæðum) og óeftirminnilegri. Mín vegna mætti Sony alveg hiklaust klára þríleikinn á ensku, ef ekki bara til að fínpússa hinar tvær. Og það væri enn betra ef David Fincher væri áfram um borð. Vegna þess að ef það er einhver sem getur gefið þér ástæðu til þess að sjá bíómynd – sem er keimlík mynd sem annar gaur gerði – aftur, þá er það þessi leikstjóri.
Greinilega hefur reynslan á fyrstu myndinni hans, Alien 3, haft svona rosalega vond áhrif á sál hans, því síðan þá hefur hann aldrei gert slaka mynd. Sumar eru stórkostlegar, aðrar bara misathyglisverðar. Í höndum einhvers annars hefði verið mjög erfitt að trúa því að þessi mynd gæti kallað eitthvað sitt eigið. Að mörgu leyti er The Girl with the Dragon Tattoo betri en Karlar sem hata konur, en svo víxlast það á öðrum sviðum. Mest er ég samt ánægður með að Kanarnir hafi ekki bakkað út úr grimmdinni í efninu.
Sagan er sú sama, en Fincher-myndin kortleggur hana aðeins betur. Sambandið á milli aðalpersónanna er aðeins öðruvísi og endirinn breyttur – en mér skilst að þessi sé meira trúr bókinni. Tæknilegu hliðarnar voru nógu góðar áður en hér er myndatakan flottari, tónlistin miklu, miklu betri (Trent Reznor og Atticus Ross kunna heldur betur að gefa rólegum myndum gott tempó) og upphafskreditlistinn margfalt svalari og reyndar óvenju James Bond-legur. Fyndið samt að hvorki Fincher né neinn annar gerir sér grein fyrir því að Immigrant Song fjallar ekki um Svíþjóð, heldur Ísland.
Rooney Mara getur samt aldrei toppað Noomi Rapace. Það er kannski ekki sanngjarnt að bera þær saman en allir sem hafa séð upprunalegu túlkunina á Lisbeth Salander munu gera það samt, meðvitað eða ekki. Salander er líka einn besti karakter sem uppi hefur verið síðustu ár í bókum eða bíómyndum. Mara reynir þó sem betur fer ekki að apa of mikið eftir Rapace. Sem er gott. Karakterarnir eru svipaðir en Mara hleypir aðeins viðkvæmari, mýkri hlið inn í persónuna sem sást ekki eins mikið til annars staðar. Það kemur fyrir að hreimurinn truflar mann stundum, eins og leikkonan eigi erfitt með að bera fram sumar línurnar úr handritinu, en á endanum fær leikkonan virðingarfullt klapp á bakið fyrir að tækla svona krefjandi hlutverk og standa sig vel í því.
Myndin tapar aldrei athygli manns, en best er hún þegar Mara og Daniel Craig spila á móti hvort öðru. Kannski er það vegna þess að Salander og Mikael Blomkvist eiga eftirminnilegar senur og virka best í sameiningu (sænsku framhaldsmyndirnar þjáðust líka mikið fyrir það að persónurnar tvær voru nánast aldrei saman í senum). Craig leikur Blomkvist í rauninni sem aumingjalegri blaðamannaútgáfuna af Bond en hann er samt faglegur og passlegur fyrir hlutverkið. Hver einasti leikari stendur sig ósköp vel, það vantar alls ekki. Fincher er heldur ekki þekktur fyrir það að leyfa leikurum sínum að komast upp með slappa frammistöðu. Þeir sem eru samt að kynnast þessari sögu í fyrsta sinn verða ekki lengi að giska á eina stærstu fléttuna. Þegar þekkt andlit eru sett í ómerkileg hlutverk, þá má oftast bóka það að eitthvað sé mikilvægara en mann grunar.
Ef þú hefur aldrei kynnst Millenium-sögunum áður, er séns á því að þú annaðhvort festist við þessa mynd eins og karlmannsaugað gerir þegar Salander gengur nakin um eða skjaldbökuflæðið mun gera út af við þig, og þetta er ógurlega löng mynd, sem er ekkert að flýta sér á milli staða. Ég leyfi henni að komast upp með háa sjöu, sem er sama einkunn og sú sænska fengi. Báðar myndirnar hafa sína kosti og nóg af þeim en, kaldhæðnislega, nokkuð ólíka galla. The Girl with the Dragon Tattoo er „múdí,“ stundum óþægileg en líka oft fyndin (á svartan máta, vissulega) níhilistasúpa sem er hlaðin upplýsingum og grimmd. Leikstjórinn hefur fundið sér hinn fullkomna milliveg á milli Se7en og Zodiac, efnislega og stíllega séð.
Allavega, ef þú telur þetta vera sögu sem er þess virði að heimsækja oftar en einu sinni, tékkaðu þá á báðum myndunum, alveg sama í hvorri röð. Þú færð það sama út úr þeim, en líka eitthvað smávegis auka.