SAG Awards veitt í nótt

SAG Awards voru veitt í nótt við töluvert stærri athöfn eins og búist var við. Eins og flestir vita er ástandið erfitt vestanhafs vegna verkfalls handritshöfunda, Golden Globe verðlaunin voru hálfhlægileg vegna þessa og allt er nú í lausu lofti vegna Óskarsverðlaunanna. SAG Verðlaunin voru því kannski eina tækifærið fyrir stjörnur eins og Brad Pitt, George Clooney, Angelina Jolie, Cate Blanchett og Tommy Lee Jones til að spóka sig um á rauða dreglinum, talandi um hönnuði fatanna þeirra og segja frá því sem þau hafa verið að gera í verkfallinu.

Fyrri helmingurinn fór í því að gefa þáttaröðum verðlaun en sá seinni fór í kvikmyndirnar. The Sopranos tóku fyrstu 3 verðlaunin og 30 Rock tóku 2. No Country for Old Men fékk 2 verðlaun sem besta leikaralið í mynd og besti aukaleikari (Javier Bardem). Daniel Day-Lewis fékk verðlaun sem besti aðalleikari og tileinkaði verðlaunin Heath Ledger sem lést nú fyrir stuttu.

„Í Brokeback Mountain var hann fullkominn og einstakur. Lokaatriði hans í myndinni var fullkomnasti einleikur sem ég hef á ævi minni séð. Ég vill tileinka Ledger þessi verðlaun mín, hann er það eina sem ég hef hugsað um síðustu daga“, sagði Day-Lewis þegar hann tók við verðlaununum í gær. Julie Christie var valin best aðalleikkona fyrir hlutverk sitt sem Alzheimersjúklingur í Away from her. Fáið ykkur nú gott sæti og lesið yfir lista sigurvegaranna:

Kvikmyndir:
Besti aðalleikari: Daniel Day-Lewis, „There Will Be Blood.“
Besta aðalleikkona: Julie Christie, „Away From Her.“
Besti aukaleikari: Javier Bardem, „No Country for Old Men.“
Besta aukaleikkona: Ruby Dee, „American Gangster.“
Besta leikaralið: „No Country for Old Men.“
Besta áhættuleikaralið: „The Bourne Ultimatum.“

Sjónvarp:
Besti leikari í mynd eða smáþáttaröð: Kevin Kline, „As You Like It.“
Besta leikkona í mynd eða smáþáttaröð: Queen Latifah, „Life Support.“
Besti leikari í dramaþáttaröð: James Gandolfini, „The Sopranos.“
Besta leikkona í dramaþáttaröð: Edie Falco, „The Sopranos.“
Besti leikari í gamanþáttaröð: Alec Baldwin, „30 Rock.“
Besta leikkona í gamanþáttaröð: Tina Fey, „30 Rock.“
Besta leikaralið í dramaþáttaröð: „The Sopranos.“
Besta leikaralið í gamanþáttaröð: „The Office.“
Besta áhættuleikaralið: „24.“
Heiðursverðlaun: Charles Durning