Rousey leikur sjálfa sig á ný

UFC meistarinn í blönduðum bardagalistum, og kvikmyndaleikkonan, Ronda Rousey, sem vann á dögunum yfirburðarsigur yfir Bethe Correia á 34 sekúndum í viðureign í Brasilíu, heldur áfram að vinna að nýjum kvikmyndaverkefnum og það nýjasta er mynd byggð á hennar eigin ævi.

ronda rousey

Paramount Pictures kvikmyndafyrirtækið hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn á metsölubókinni „My Fight/Your Fight“ sem er ævisaga Rousey. Hún mun leika sjálfa sig í myndinni.

Rousey skrifaði sjálf bókina ásamt systur sinni Maria Burns Ortiz, og segir frá því hvernig frægðarsól Rousey reis, og um hindranirnar á veginum.

Engin tímasetning er komin á tökur myndarinnar. Rousey mun keppa í einum bardaga á þessu ári til viðbótar, en mun svo leika í spennumynd Pete Berg, Mile 22,  í janúar nk.

Rousey ættu flestir að þekkja úr myndunum The Expendables 3, Furious 7 og nú síðast Entourage, en þar lék hún einmitt sjálfa sig.