Hollywoodstjarnan og Óskarsverðlaunahafinn Mickey Rourke, sneri aftur í keppnishring hnefaleikanna í gær föstudag, 62 ára að aldri, og vann þar glæstan sigur á andstæðingi sínum, sem er meira en tvöfalt yngri en hann. Hér og hér má sjá myndir frá viðureigninni, og hér mér sjá myndband frá bardaganum.
Rourke sló hinn 29 ára gamla Elliot Seymour frá Pasadena í gólfið tvisvar í annarri lotu, áður en dómarinn stöðvaði bardagann.
Viðureignin, sem fór fram í tónleikahöll í Moskvu, var fyrsti bardagi Rourke í 20 ár. Hann tók sér frí frá leiklistinni snemma á tíunda áratug síðustu aldar, og sneri sér að hnefaleikum en á þriggja ára ferli vann hann sex viðureignir og gerði tvö jafntefli.
Rourke gaf í skyn núna að endurkoma hans í hringinn hjálpaði honum að glíma við ótilgreind persónuleg málefni.
„Ég er að fást við ákveðin atriði í lífi mínu þar sem [hnefaleikar] hafa bjargað mér frá sjálfum mér,“ sagði Rourke við rússneska sjónvarpsstöð. „Og fyrir mann eins og mig, þá er betra að lifa í ótta en að halda áfram að lifa í skömm.“
Rourke sagði jafnframt að hann hygðist berjast fjórum sinnum í viðbót í Rússlandi.
Rourke undirbjó sig í búningsherbergi skreyttu skríni með kertum, myndum af dýrlingum og ljósmyndum af hundunum sínum. Rourke sagði að hann væri að syrgja nýlátinn Chihuahua hund sinn. Hann mætti svo í hringinn með Stetson hatt á höfði, í rauðum og gylltum sloppi og í skínandi gullnum hönskum, og krossaði sjálfan sig yfir brjóstið í sífellu.
Rourke, sem sagðist hafa misst 16 kílógrömm í aðdraganda bardagans, var mun grennri en vel þekkt bardagapersóna sem hann lék í The Wrestler árið 2008. Á stuttbuxum hans var skrifað bardaganafn hans frá því á tíunda áratug síðustu aldar, Marielito, og skilaboð á spænsku sem þýða „Alltaf myndarlegur.“
Seymour, sem er fyrrum California Golden Gloves meistari og er með 1 sigur og 9 töp á afrekalistanum sem atvinnumaður, náði engu markverðu höggi á Rourke.