Rödd Öskubusku látin

Í gær sögðum við frétt af nýrri bíómynd eftir sögunni um Öskubusku, en nú berast þær fregnir að Ilene Woods, sem talaði fyrir Öskubusku í hinni sígildu Disney teiknimynd, sé látin, 81 árs að aldri.

Hún lést af veikindum tengdum Alzheimer sjúkdómnum, á hjúkrunarheimili í Canoga Park, að því er eiginmaður hennar Ed Shaughnessy sagði Los Angeles Times.

Woods var 18 ára gömul útvarpssöngkona árið 1948 þegar hún hljóðritaði prufu fyrir Disney mynd sem átti að fara að gera. Tveimur dögum síðar hlustaði Walt Disney sjálfur á hana syngja, og í kjölfarið fékk hún hlutverk Öskubusku.

Woods gerði síðan garðinn frægan í sýningu Perry Como og Arthur Godfrey á sjötta áratugnum áður en hún settist í helgan stein á áttunda áratugnum.

Hún lætur eftir sig eiginmann sinn til 47 ára, einn son frá hjónabandi þeirra, og eina dóttur frá fyrra hjónabandi, auk þriggja barnabarna.

Stikk: