Fyrir tíð Iron Man átti Robert Downey Jr. erfitt með að fá hlutverk vegna þess að hann þótti erfiður að vinna með. Þrátt fyrir það tók Marvel áhættu og réð hann í hlutverk Tony Stark í fyrstu kvikmyndinni um moldríka verkfræðinginn og sló sú mynd rækilega í gegn.
Þriðja Iron Man myndin verður frumsýnd 3. maí næstkomandi og verður Downey Jr. í hlutverki Tony Stark í fjórða og mögulega seinasta sinn því Marvel hefur varla efni á honum lengur og rennur samningur hans við fyrirtækið út nokkrum dögum eftir frumsýningu.
Downey Jr. sást seinast í hlutverki Tony Stark í The Avengers og pungaði Marvel út 6 milljörðum ísl. króna í laun fyrir leik hans í þeirri mynd, þar að auki fékk hann prósentur af seldum miðum.
Það eru ekki einungis peningarnir sem ráða úrslitum því Downey Jr. hefur sagt frá því í nýlegu viðtali að hann hafi toppað sig í fyrstu myndinni og vilji ekki festa sig í hlutverki Stark.