Road House viðhafnarútgáfa á Blu

„Road House“ (1989) með Patrick Swayze fær viðhafnarútgáfu á Blu-ray frá bandaríska útgáfufyrirtækinu Shout Factory. Fáir myndu kalla hana frábæra og halda andliti en hún er sígild mynd með dyggan hóp aðdáenda.

Road House 4

Níundi áratugurinn var áratugur hasarmyndanna með hvítþvegnum hetjum sem öttu kappi við vondu kallana sem áttu það skilið að vera drepnir eða að minnsta kosti lúbarðir. Swayze komst ekki í hóp Chuck Norris, Schwarzenegger eða Stallone í þeirri deild en hann hafði allt til að bera eins og „Road House“ sýnir; vel skorinn, massaður og með kattliðugar hreyfingar í bardagaatriðunum enda nýbúinn að dansa úr sér allt vit í „Dirty Dancing“ (1987). Hér leikur hann útkastarann Dalton sem hefur byggt upp gott orðspor í bransanum og er fenginn til að hreinsa út óþverralýðinn á vinsælum bar í hinum tilbúna bæ Jasper einhvers staðar í Suðurríkjunum. Hann lendir upp á kant við helsta óþokkann í bænum sem sendir heilan her af slagsmálaglöðum vöðvafjöllum á eftir Dalton og höggin fljúga og barkakýli eru fjarlægð með hnefum… í einu atriði í það minnsta.

Road House (1989)

„Road House“ hefur verið til á Blu í mörg ár en væntanleg er viðhafnarútgáfa með miklu magni af aukaefni sem prýðir diskinn; tveir yfirlestrar, heimildarmynd um gerð myndarinnar, samtal við leikstjórann Rowdy Herrington og stikla um áhættuatriðin og tónlistina í myndinni ásamt fleiru. Einnig er Swayze minnst með ummælum frá eiginkonu hans, Lizu Niemi Swayze, og meðleikurum og aðstandendum „Road House“ en kappinn lést árið 2009, einungis 57 ára að aldri, eftir skammvinna baráttu við krabbamein í brisi.

Flottur pakki fyrir flotta mynd og útgáfudagurinn er 6. september.

Sýnishornið úr myndinni: