Rithöfundur eða leigumorðingi?

Fyrsta stikla fyrir nýjustu Netflix bíómynd Paul Blart Mall Cop gamanleikarans Kevin James er komin út, myndina True Memoirs Of An International Assassin, en þar leikur James rithöfundinn Sam Larson sem lætur drauma sína rætast í gegnum aðalpersónuna í nýrri bók sinni, sem er stórhættulegur, tungulipur og hæfileikaríkur leigumorðingi.

kevin james mynd

Þegar bókin kemur á markaðinn þá kemst Larson að því sér til mikillar skelfingar að útgefandinn breytti bókinni þannig að hún hljómar eins og um sé að ræða minningabók raunverulegs leigumorðingja.

Í kjölfarið er Sam rænt, enda telja allir hann nú vera leigumorðingja, og hann flækist í mál þar sem ráða á forseta af dögum. Nú þarf hann að ákveða hvort hann á að manna sig upp í að verða eins og persónan í bókinni, eða reyna að fá hjálp. Miðað við það sem gefið er í skyn í stiklunni þá virðist hann ætla að reyna seinni kostinn.

Leikstjóri er Jeff Wadlow og aðrir helstu leikarar eru Andy Garcia, Kim Coates, Zulay Henao og Kelen Coleman.

Myndin kemur á Netflix vídeóveituna 11. nóvember nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan:

kevin james