Það þótti ekki mörgum Jurassic Park 3 vera mjög hátt skref fyrir Hollywood framleiðendur, og margir vonuðust að þetta yrði síðasta myndin um risaeðlurnar eftir að serían hélt áfram að sökkva (The Lost World: Jurassic Park var heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir). En engu að síður er fjórða Júragarðsmyndin (segir maður það ekki annars?) á leiðinni – sem eru kannski gamlar fréttir – en það má svosem alveg fara út í þetta helsta og nýjasta.
Steven Spielberg segist vera óvenju bjartsýnn með þetta verkefni og talið er að þetta verði besta myndin í röðinni. Hún mun vissulega ekki líta dagsins ljós fyrr en veturinn 2005 – eða svo er ákveðið – en um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á handritsskrifin. Söguþráður er tiltölulega óljós en Sam Neill mun ekki snúa aftur víst, einfaldlega vegna þess að persóna hans hefur ekkert meira að gera í þetta sinn, en talið er að Jeff Goldblum og Richard Attenborough munu þó taka aftur þátt í tilvonandi eltingarleiknum. Enginn leikstjóri hefur verið 100% ákveðinn í þetta, en ýmis ‘slúður’ benda til þess að Alex Proyas (næsta mynd hans er I, Robot, en svo gerði hann eina uppáhalds vísindaskáldsögu mína: Dark City) muni kannski taka þetta að sér.
En jæja, það má svosem gera verri hluti. Vonum bara að bjartsýni Spielbergs borgi sig.

