Breski handritshöfundurinn Kelly Marcel hefur verið ráðin til að skrifa handrit að kvikmyndaútgáfu erótísku metsölubókarinnar Fimmtíu gráir skuggar, eða Fifty Shades of Grey eins og hún heitir á frummálinu.
Það var sjálfur höfundur bókarinnar, E L James sem tilkynnti þetta á Twitter síðu sinni, en það hefur tekið framleiðendur myndarinnar þrjá mánuði að finna rétta handritshöfundinn.
Marcel er best þekkt fyrir sjónvarpsþættina Terra Nova, en hefur einnig skrifað myndina Saving Mr. Banks, sem fjallar um 20 ára baráttu Walt Disney við að gera bíómynd upp úr sögunni um Mary Poppins. Það eru þau Tom Hanks, Emma Thompson og Colin Farrell, sem leika aðalhlutverkið í Saving Mr. Banks, en tökur þeirrar myndar hófust í síðasta mánuði.
Terra Nova var sýnd í einn vetur, en síðan var ákveðið að hætta framleiðslu þeirra. Terra Nova fjallar um fjölskyldu sem ferðast 85 milljón ár aftur í tímann, eða til þess tíma er risaeðlur spókuðu sig á jörðinni.
Það er Universal kvikmyndaverið sem á kvikmyndaréttinn á Fifty Shades of Grey, en þeir keyptu hann á uppboði í mars sl. fyrir fimm milljónir Sterlingspunda, eða rétt tæpan milljarð íslenskra króna.
Fifty Shades of Grey fjallar um ríkan viðskiptajöfur sem ræður til sín unga konu og greiðir henni vel fyrir að vera kynlífsþræll sinn. 40 milljón eintök hafa selst af bókinni um allan heim.
Universal áætlar að gera þríleik upp úr Fifty Shades of Grey og tveimur framhaldsbókum hennar.