Ris McDonald´s hamborgaraveldisins – Fyrsta stikla!

Michael Keaton, sem leikið hefur aðalhlutverkið í báðum myndunum sem fengið hafa Óskarsverðlaun sem besta mynd sl. 2 ár, Birdman og Spotlight, er mættur aftur í fyrstu stiklu fyrir The Founder, mynd um manninn sem gerði McDonald´s hamborgarakeðjuna að risaveldi.

founder-michael-keaton

Myndin fjallar um Ray Kroc sem gerði McDonald´s að marg milljarða dollara veldi, en ferlið var umdeilt: Kroc kom að fyrirtækinu upphaflega sem eigandi sérleyfis ( franchise ) þegar McDonald´s var lítil keðja, en keypti að lokum fyrirtækið í heild sinni, og lét McDonald´s bræðurna fá eina milljón Bandaríkjadala hvorn. Þegar Kroc féll frá árið 1984 voru eignir hans metar á 500 milljónir dala, eða andvirði rúmlega 62 milljarða íslenskra króna.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Leikstjóri myndarinnar er The Blind Side leikstjórinn John Lee Hancock og handrit skrifar The Wrestler höfundurinn Robert D Siegel. Með önnur helstu hlutverk fara Laura Dern og Nick Offerman.

Frumsýningardegi myndarinnar var flýtt, eða frá seint í nóvember til byrjunar ágúst, til að lenda ekki mitt í því kraðaki mynda sem frumsýndar eru jafnan í nóvember til að vekja athygli Óskarsakademíunnar. Framleiðandinn, Harry Weinstein, býst engu að síður við því að myndin muni verða á meðal Óskarstilnefndra mynda á næsta ári.

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 5. ágúst nk. en er ekki komin með frumsýningardag á Íslandi – endar er enginn McDonalds á Íslandi lengur!