Timur Bekmambetov, leikstjóri Wanted og Wanted 2, sem nú er í undirbúningi, segist hafa fundið leið til að reisa persónu Angelinu Jolie úr fyrri myndinni upp frá dauðum, en sem kunnugt er lést persónan í lok fyrri myndarinnar. Timur segir að upprisan verði tengd hinu kröftuga vaxbaði sem Jolie og félagar hennar dýfðu sér í eftir hvert verkefni, þar sem þau fengu bót meina sinna á undraverðan hátt. En spurningin er sem sagt; getur baðið reist mann upp frá dauðum? Það virðist einmitt vera málið.
Bekmambetov kom inn á þetta mál í pallborðsumræðum á Comic-Con og sagði þetta um málið: „James McAvoy verður í framhaldsmyndinni og mun reyna að vekja upp Fox ( Jolie ). Hún er í vaxbaðinu.“
Það verður spennandi að sjá hvernig vaxbaðið mun lækna banvænt skotsár á höfði.
Bekmambetov sagði einnig við þetta tækifæri að framleiðslan á myndinni myndi hefjast eftir fáeina mánuði.

