Rihanna og Hathaway í Oceans Eight

rihannaLeik- og söngkonan Rihanna og leikkonan Anne Hathaway eiga í viðræðum um að leika í Oceans Eight, sem er endurgerð á Steven Soderbergh myndinni Oceans Eleven, en með leikkonum í öllum aðalhlutverkunum sem áður voru leikin af karlkyns leikurum.

Sandra Bullock, Cate Blanchett, Helena Bonham Carter og Mindy Kaling verða í öðrum helstu hlutverkum.

Nora Lum, sem er betur þekkt undir rapparanafni sínu Awkwafina, er sömuleiðis meðal leikenda. Leikstjóri er Gary Ross ( The Hunger Games ).

Myndin mun verða í svipuðum dúr og Oceans Eleven, en þar fór George Clooney fyrir hópi þjófa og svikahrappa, sem reyndu sig við stórt rán.  Bullock mun verða í svipuðu hlutverki og Clooney í upprunalegu myndinni.

hathawayRoss sagði við vefsíðuna Slashfilm í júí sl. að myndin yrði í svipuðum tón og Oceans Eleven þríleikurinn, en Brad Pitt og Matt Damon voru einnig þar á meðal leikenda.

„Þetta er svipaður tónn. Þú veist, Steven Soderbergh og ég erum mjög nánir vinir, og við hefðum ekki farið út í þetta ef svo væri ekki,“ sagði Ross í samtalinu við Slashfilm.

Tökur hefjast í október nk. í New York.

Næst fáum við að sjá Rihanna í Luc Besson vísindaskáldsögunni Valerian and the City of a Thousand Planets.