RIFF óskar eftir sjálfboðaliðum

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík sem haldin verður 17. til 27. september, auglýsir nú í 6. skipti eftir sjálfboðaliðum sem vilja starfa við hátíðina. Sjálfboðaliðar geta verið á öllum aldri og leitast er við að þeir fái verkefni eftir áhugasviði og hæfni. Til að mynda við að aðstoða stjörnur úr kvikmyndabransanum að komast á milli staða.

Í fimm ár hafa tugir sjálfboðaliða frá mörgum löndum unnið við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, rétt eins og tíðkast á stórum kvikmyndahátíðum úti í heimi. Sjálfboðaliðarnir geta fengið margvísleg verkefni:

Að aðstoða við skipulagningu veislna og sérviðburða í borginni, svara spurningum gesta í upplýsingamiðstöð hátíðarinnar eða aðstoða við miðasölu.

Að aðstoða ótalmarga alþjóðlega hátíðargesti við að rata um höfuðborgina.

Að hjálpa til við venjuleg skrifstofustörf, hafa samband við alþjóðlega kvikmyndaskóla, svara í síma og fleira.

Að aðstoða stjörnur úr kvikmyndabransanum að komast á milli staða: til og frá flugvelli og hóteli til dæmis.

Að aðstoða við framkvæmd ýmissa hliðarviðburða hátíðarinnar sem eru sérstaklega ætlaðir grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólanemum.

Hægt er að fylla út umsókn með því að smella hér.