Í desember sl. tilkynnti 20th Cenutury Fox framleiðslufyrirtækið að það hefði rekið leikstjórann Bryan Singer úr hinni ævisögulegu Queen mynd Boheminan Rhapsody, þegar aðeins tvær vikur voru eftir í kvikmyndatökum.
Í hans stað fékk fyrirtækið Dexter Fletcher (Eddie the Eagle) til að klára myndina.
Ástæða brottvikningar Singer var sögð sú að hann hafi þótt ótrúlega erfiður í samstarfi, auk þess að hafa horfið af tökustað um Þakkargjörðarhelgina, þó hann hafi síðar neitað því í yfirlýsingu.
En þrátt fyrir þetta allt saman, og ólíkt því sem gerðist í Solo: A Star Wars Story, þar sem Ron Howard tók við keflinu af þeim Phil Lord og Chris Miller, þá mun Singer verða titlaður sem leikstjóri myndarinnar.
Í samtali við Empire kvikmyndaritið segir framleiðandinn Graham King: „Bryan Singer er skráður leikstjóri kvikmyndarinnar. Í raun glímdi Bryan við ákveðin mál í einkalífinu á þessum tíma. Hann vildi fá pásu frá kvikmyndinni til að ráða fram úr sínum málum, en við þurftum hins vegar að klára myndina. Þannig var þetta .. við þurftum ekki að finna upp hjólið. Við þurfum einhver sem hefði listrænt frelsi, en myndi vinna innan ákveðins ramma og [Fletcher] gerði okkur stóran greiða þar.“
Bohemian Rhapsody fjallar um hljómsveitina bresku Queen og söngvarann Freddie Mercury, sem varð einn dáðasti skemmtikraftur í heimi. Myndin segir frá uppgangi sveitarinnar, allt fram að Live Aid tónleikunum sögufrægu, en þá var Mercury kominn með alnæmi, sem var nánast dauðadómur á þeim tíma.
Bohemian Rhapsodey kemur í bíó 2. nóvember nk. hér á Íslandi. Rami Malek leikur Freddie Mercury, Ben Hardy er Roger Taylor, Gwilym Lee er Brian May, Joe Mazzello er John Deacon, Lucy Boynton er Mary Austin, Aaron McCusker er Jim Hutton, Aidan Gillen er John Reid, Tom Hollander er Jim Beach, Allen Leech er Paul Prenter og Mike Myers leikur einnig í myndinni, en ekki er vitað hvaða persónu hann leikur.