Lost River (áður How To Catch a Monster) hefur verið harkalega gagnrýnd eftir að hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes, en myndin er frumraun Ryan Gosling sem leikstjóri. Myndin fjallar um einstæða móður sem er rifin inn í myrka undirheima á meðan unglingssonur hennar uppgötvar veg sem leiðir hann að leyndri borg neðansjávar.
The Hollywood Reporter, Variety og The Daily Telegraph eru meðal þeirra sem hafa sagt myndina vera lélega eftirhermu af verkum David Lynch og Terrence Malick.
Leikstjórinn Nicholas Winding Refn, sem hefur áður leikstýrt Gosling í myndum á borð við Drive og Only God Forgives, er ekki á sama máli og kom Gosling til varnar í nýlegu viðtali við New York Magazine. „Mér finnst hún vera falleg, þetta er svona mynd sem fólk mun átta sig á með tímanum,“ sagði Refn.
Myndin skartar meðal annars Christinu Hendricks í aðalhlutverki auk Saoirse Ronan og Eva Mendez. Matt Smith sem leikur í bresku þáttunum Doctor Who leikur einnig þýðingarmikið hlutverk í myndinni.
Lost River er áætluð í almennar sýningar í haust. Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni.