Af þeim hrollvekjukóngum sem starfa enn í kvikmyndabransanum hafa fáir haldið uppi orðsporinu eins vel og Sam Raimi (þrátt fyrir að hafa fengið vægt högg með Spider-Man 3). Til sönnunnar um það snéri hann sér aftur að hryllingsmyndum með stæl fyrir þremur árum þegar að hann gaf okkur hina æðislegu Drag Me to Hell, en síðan þá hafa einungis ævintýralegar fantasíumyndir komist að hjá honum; þó að aðeins eitt af þeim tveimur verkefnum sem voru á dagskrá blómstraði.
Wizard of Oz-mynd frá Raimi hljómar auðvitað ekki illa og stiklan jók aðeins forvitni mína, en manni langar nú alltaf að hafa hressandi hryllingsmynd frá honum rétt handan við sjóndeildarhringinn. Sú virðist nú samt vera raunin í þetta skiptið, þar sem kappinn tilkynnti í viðtali við ShockTillYouDrop í síðustu viku að hann, ásamt bróður sínum, er að skrifa handrit að nýrri hrollvekju.
„Mig langar að gera nýja hryllingsmynd, ég er að skrifa eina með bróður mínum í augnablikinu. Mig hlakkar verulega til.“
Shock náði síðan aftur tali af honum á dögunum við frumsýningu The Possession (sem Raimi framleiðir) og þar gaf hann okkur örlítið smakk af myndinni: „Þetta er mjög einföld saga um persónur, við erum að reyna að finna út hvað þær vilja. Þetta eru öll helstu grundvallaratriðin – hvernig þau komast í tæri við myrkari öfl. Það er ekki mikið til að segja frá eins og er, við erum að vinna út frá þriggja blaðsíðna hugmynd.“
Á svona grunnstigi er auðvitað ekki hægt að vita hversu langt er í myndina og hún er svo sannarlega ekki rétt handan við sjóndeildarhringinn, en engu að síður fagnar maður í hljóði að boltinn sé farinn að rúlla.
Hvað finnst lesendum um fregnirnar? Er þetta fagnaðartilefni eða ætti hann að láta Drag Me to Hell nægja?