Komið hefur í ljós að hin stórskemmtilega bók Pride and Prejudice and Zombies mun verða útfærð yfir á hvíta tjaldið. Eins og titillinn gefur til kynna þá er þessi bók endursögn á frægasta bókmenntaverki Jane Austen, Pride and Prejudice. Söguþráðurinn er nokkurn veginn sá sami og er að finna í upprunalegu bókinni þar sem er sagt frá togstreitu og ástum á milli Elizabeth Bennett og Mr. Darcy, nema það að uppvakningar virðast ógna úr öllum áttum.
Eins B-myndalega og þetta hljómar hefur undirrituð lesið bókina og hún er í raun og veru mjög góð. Þetta er mynd sem sannir Zombie-elskendur og við stelpurnar sem getum ekki fengið nóg af hinum ótæmandi sjarma herra Darcy eigum pottþétt eftir að elska.
Einnig mun það gleðja flesta að Natalie Portman hefur tekið að sér hlutverk aðalkvenpersónunnar, Elizabeth Bennett. Natalie hefur nú þegar sannfært okkur í fyrri myndum sínum að hún er mjög trúleg í búningardrama (sumar leikkonur einfaldlega hafa þetta ekki. Ekki sjáið þið Megan Fox fyrir ykkur í 19. aldar klæðnaði) og kann að sparka í rassa.
Uppvakningar hafa venjulega verið tengdir við nútímann og jafnvel framtíðina því þeir eru nú eftir allt saman mjög vísindaskáldskapslegir. Þetta skemmtilega tvist að skella þeim ekki aðeins aftur í 19. öldina heldur inn í klassískt bókmenntaverk er hrein snilld. Ástarsögur hafa hingað til verið vel heppnað krydd í Zombiesúpuna eins og má sjá í Shaun of the Dead og Zombieland svo það verður gaman að fylgjast með hvernig viðtökur á Pride and Prejudice and Zombie á eftir að fá.
Ég er líka guðslifandi fegin því hvernig uppvakningamyndirnar virðast stefna í það að standa upp í hárinu á vampíruæðinu því í stríðinu milli uppvakninga og vampíra má ávallt finna mig þeim megin sem rotnunarlyktina er að finna.

