Roman Polanski ætlar að mæta á kvikmyndahátíðina í Zurich í Sviss til að taka á móti heiðursverðlaunum hátíðarinnar. Þetta væri varla mikil frétt, nema af því að hann mun mæta tveimur árum of seint. Eins og flestir þekkja var ætlunin að veita Polanski verðlaunin fyrir tveimur árum, en var hann handtekinn af svissnesku lögreglunni á leið sinni þangað. Var það í tengslum við mál sem hefur haldið Polanski utan Bandaríkjanna frá 1977, en hann er sakaður um að hafa nauðgað stúlku undir lögaldri. Var honum svo haldið í stofufangelsi í sveitavillu sinni í Gstaad, á meðan ríkið ákvað hvort ætti að framselja hann til Bandaríkjanna. Þeir ákváðu svo að gera það ekki, og var honum sleppt í Júlí 2010.
Talandi um Polanski þá er nýjasta mynd hans Carnage, með þeim Jodie Foster, Christoph Waltz, John C. Reilly og Kate Winslet í aðalhlutverkum væntanleg á klakann í mars á næsta ári. Sýnishorn fyrir myndina má finna hér.