Harry Potter aðdáendum til mikillar óánægju, þá hefur bandaríska kvikmyndaeftirlitið (MPAA) skellt PG aldursstimpil á nýjustu myndina, Harry Potter and the Half-Blood Prince.
Eins og menn eflaust vita, þá voru síðustu tvær Potter-myndirnar með PG-13 merkið, sem gefur augljóslega til kynna að um myrkari myndir eru að ræða.
PG bendir til þess að næsta mynd verði tamari og fjölskylduvænni, og það veldur aðdáendum gífurlegum vonbrigðum þar sem að sjötta bókin er talin ein af alvarlegustu og myrkustu köflum seríunnar.
Sjálfur hef ég lesið allar bækurnar, og ef ég man rétt, að þá voru síðustu kaflar sjöttu bókarinnar heldur betur „intense“ og, án þess að fara út í spoilera, endaði bókin á mjög þungum nótum. Ekki beint efni í PG-mynd, að mínu mati, svo ég skil pirringinn mjög vel.
Það er eins gott að myndin standist væntingar því þetta er núna annað skiptið sem að Warner Bros. veldur Potter-fíklum vonbrigðum, en flestir vita eflaust af því að myndinni var frestað frá s.l. nóvember til júlí-mánaðar á þessu ári.

