Brasilíska fótboltagoðsögnin Pele er á leiðinni á hvíta tjaldið, en ný leikin heimildarmynd sem á að fjalla um uppvöxt þessa frábæra fótboltamanns og leið hans til frama, er á leiðinni. Margir telja Pele vera besta fótboltamann allra tíma.
Einnig er mynd um besta fótboltamann vorra tíma, Lionel Messi, í undirbúningi.
Tökur á Pele myndinni eiga að hefjast í ágúst nk. Bræðurnir Jeff og Michael Zimbalist munu leikstýra myndinni ásamt því að skrifa handritið.
Myndin mun fjalla um uppvöxt Pele, hvernig hann byrjaði sem fátækur strákur að leika sér með boltann úti á götu í Brasilíu og þar til hann leiðir Brasilíumenn til fyrsta heimsmeistaratitils síns í knattspyrnu árið 1958.
Brasilíumenn með Pele innanborðs unnu einnig heimsmeistaratitilinn árið 1962 og 1970.
Framleiðendur myndarinnar stefna að því að ljúka við hana áður en heimsmeistarakeppnin í fótbolta hefst í Brasilíu næsta sumar, en keppnin stendur frá 12. júní 2014 – 13. júlí 2014.
Þeir Zimbalist bræður hafa áður leikstýrt og framleitt heimildarmyndina The Two Escobars frá árinu 2010, sem fjallaði um allt í senn; þátttöku Kólumbíumanna í heimsmeistarakeppninni í fótbolta árið 1994, eiturlyfjahring eiturlyfjabarónsins Pablo Escobar og drápið á kólumbíska knattspyrnumanninum Andres Escobar ( óskyldur Pablo ).
Jeff Zimbalist leikstýrði einnig heimildarmyndinni Favela Rising, sem fjallar um afrísku reggí hreyfinguna.
Fleiri fótboltamyndir eru einnig í undirbúningi. Epic Pictures Group hafa byrjað þróun á kvikmynd um líf og störf besta fótboltamanns í heiminum í dag, Argentínumannsins Lionel Messi, en myndin ku eiga að verða í svipuðum stíl og Rocky.