Pacino hafnaði Han Solo og John McClane

Sumir leikarar fá einfaldalega of mikið af góðum tilboðum, eða amk. mætti halda það um stórleikarann Al Pacino. Pacino sat fyrir svörum í Palladium í London um helgina og ræddi þar meðal annars fræg hlutverk sem hann hafnaði, en á meðal þeirra er hlutverk Han Solo í Star Wars. 

pacino

„Ég hefði getað leikið í Star Wars, en ég skildi ekki handritið,“ sagði hinn Óskarsverðlaunaði Al Pacino, samkvæmt frásögn breska blaðsins London Evening Standard. 

En Pacino var ekki hættur; næsta hlutverk sem hann nefndi sem hann hafði hafnað var hlutverk John McClane í fyrstu Die Hard myndinni frá árinu 1988. Eins og frægt er orðið fékk Bruce Willis það hlutverk.

„Það er mér að þakka að ferill þessa drengs tók flugið,“ sagði Pacino.

Af öðrum hlutverkum sem Pacino hafnaði voru hlutverk Colonel Kurtz, sem Marlon Brando lék, og Captain Willard, leikinn af Martin Sheen, í Apocalypse Now, auk þess sem Pacino var boðið hlutverkið sem Richard Gere lék á móti Juliu Roberts í Pretty Woman. 

„Ég er ekki sá besti í að sjá hvað er gott og hvað ekki,“ sagði Pacino í gríni.

 

Stikk: