Ógeð, skemmtun, húmor og rómantík

Tómas Valgeirsson aðalgagnrýnandi kvikmyndir.is hefur dælt inn umfjöllunum um nýjar myndir að undanförnu, ekki aðeins skrifuðum umfjöllunum, heldur einnig í félagi við Sindra Grétarsson í Bíótali, þar sem umfjöllunin er gerð með aðeins öðru sniði.
Nýjustu fjórar umfjallanirnar eru um myndir Twilight stjörnunnar Robert Pattinsons, Rembermer me, teiknimyndina Despicable Me, þar sem Office stjarnan Steve Carrell talar fyrir aðalpersónuna, hrollvekjuna The Human Centipede, og gamanmyndina The Other Guys.
Um Rembemer me segir Tómas meðal annars: „Nei sko! Robert Pattinsson getur leikið víst eftir allt saman! Bara svekkjandi að hann skuli ekki vera flinkur að velja góð handrit. Ætli hann sé kannski bara að fikra sig í gegnum hvað sem er til að fá feita launaseðla? Fyrir utan Harry Potter 4 og Twilight 1-3 þá er þetta það eina sem ég hef séð manninn leika í.“
Og um Despicable Me segir Tómas m.a. : „Teiknistíllinn er æðislega öfgakenndur og persónur ýktar í útliti (þoli ekki hvað margar tölvugerðar myndir reyna of mikið að vera photo-real), sem smellpassar við fjölskylduvæna tóninn. Karakterarnir eru sæmilega athyglisverðir þótt það séu langflestir hvort eð er að pæla í litlu gulu minion-köllunum sem stálu hverri einustu senu. Þessir gulu strumpar – sem virðast ekkert gera annað en að rífa kjaft og lemja hvorn annan – hittu a.m.k. vel til mín með einfalda slapstick-húmor sínum og hlátur þeirra er bara einum of smitandi.“
Um The Human Centipade segir Tómas meðal annars: „Það eina (ath. ÞAÐ EINA) sem ég er ekki hrifinn af því að horfa á, það eru myndir sem ganga ekki út á neitt annað en það að sýna fólk kveljast út alla lengdina. Slíkar myndir hafa oftast engan söguþráð, enga þróun eða tilgang. Þær sýna bara persónur í ógeðfelldum aðstæðum og áhorfandinn kastar upp á það (í hausnum á sér) hvort þær lifi eða deyi.“

Um The Other Guys segir Tómas m.a. „The Other Guys kom mér furðu mikið á óvart og er bæði einhver freðnasta og fyndnasta mynd sem ég hef séð í marga mánuði.

Hún er reyndar ekki alveg Scott Pilgrim-fyndin, en hún rétt snertir Get Him to the Greek í húmor (og sú mynd var ruddalega fyndin), sem þýðir að hún sé þarnæstfyndnasta mynd sumarsins, ef ekki ársins. „

Auk umfjallana Tómasar þá bætast daglega við nýjar umfjallanir frá notendum, og sú nýjasta er eftir Jónas Hauksson, og fjallar um Lady and the Tramp, en hann hefur verið iðinn við að skrifa um Disney teiknimyndir að undanförnu: „Annað gott við myndina var ástarsagan en eins og ég sagði fyrir ofan er þetta ein af þeim bestu. Þau hafa reyndar þetta týpíska „ástfangin á einum degi“ klisju en ég var ekki að búast við einhverri rosalegri dýpt í sambandið. Ég fékk samt meiri dýpt en ég bjóst við, enda bjóst ég bara við einhverju rosalegu standard þar sem allt gekk fullkomlega, en það breyttist í hundabyrgisatriðinu.“

Ég bendi notendum svo á Bíótal þeirra Tómasar og Sindra, en það má sjá fyrir neðan vídeóspilarann á forsíðunni og á undirsíðum hverrar myndar.

Góða skemmtun.