Óþekk mamma rekin úr bíó

Hópur mæðra í Lincoln í Nebraska í Bandaríkjunum ákvað að gera það sama og aðalpersónurnar í gamanmyndinni Bad Moms, þar sem þær Mila Kunis, Christina Applegate og Kathryn Hahn fara með hlutverk þriggja úttaugaðra mæðra sem ákveða að sletta ærlega úr klaufunum, gerðu.

bad-moms

Þær ákveða að fara út að skemmta sér, og stefnan er tekin í bíó til að sjá Bad Moms. Það endaði hinsvegar með ósköpum þegar þeim var hent út fyrir að vera, samkvæmt starfsmönnum bíósins, óþekkar mömmur.

Dagblaðið Lincoln Journal Star segir frá því að fyrr um kvöldið hafi barnapía einnar móðurinnar ekki komist til að passa – og í staðinn fyrir að hætta við bíóferðina – þá ákvað mamman að taka níu mánaða gamalt barn sitt með.

Það sem mæðurnar vissu ekki var að bíóið, Marcus Theatre, leyfir engin börn undir sex ára aldri á bannaðar myndir ( R-rated). Mömmurnar fengu þó miða og settust inn í salinn, en öryggisvörður kom þá aðvífandi og bað þær vinsamlegast um að fara út.

Móðirin tjáði sig um málið á Facebook síðu sinni: „Mér var sagt að útaf reglum bíósins þyrfti ég að fara, ellegar yrði kalla í lögregluna. Þau höfðu áhyggjur af barninu og hvað það myndi sjá í bíóhúsinu. Ég tjáði honum að barnið myndi sofna eftir fáeinar mínútur, og ekki aðeins myndi barnið ekki sjá myndina, heldur myndi það alls ekki trufla aðra gesti.“

Svo segir hún: „Ég stóð upp og og spurði þær 20-30 hræður sem voru í salnum hvort að einhver vildi að ég færi út, ég myndi gera það .. en allir klöppuðu og sögðu „leyfðu henni að vera“.“

Samt sem áður þá var mæðrahópnum óþekka vísað á dyr og þær fengu svo miðana endurgreidda. En það sem stuðaði hópinn var þó það að hitta annan mæðrahóp – þar sem ein móðirin hélt á barni – sem hafði horft á fyrri sýningu á Bad Moms.

Talsmaður bíósins, Lindsey Weix, hélt ró sinni: “ … einn gesta okkar kom með ungan son sinn. Við leyfðum þeim ekki að vera á sýningunni vegna okkar reglna,“ útskýrði hún. „Þessar myndir eru ætlaðar fullorðnu fólki.“

Bad Moms, sem var þriðja vinsælasta myndin í Bandaríkjunum nú um helgina, verður frumsýnd á morgun hér á Íslandi, og forsýnd kl. 20 í kvöld í Smárabíói. Spurning að skilja öll ungabörn eftir heima!