Vísindaskáldsagan Life verður frumsýnd á morgun föstudag, í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói, Akureyri.
Í tilkynningu frá Senu segir að Life sé hrollvekjandi kvikmynd um vísindamenn um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni, sem hafa það verkefni að rannsaka fyrstu merki um líf frá öðrum hnetti. Uppgötvunin breytist í martröð þegar lífveran þróast á ofsahraða og ógnar lífi áhafnarmeðlima. Lífveran olli gjöreyðingu á Mars og gæti lagt allt líf á jarðríki í hættu.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Leikstjórn: Daniel Espinosa
Helstu leikarar: Jake Gyllenhaal, Rebecca Ferguson, Ryan Reynolds
Áhugaverðir punktar til gamans:
-Life er þriðja myndin sem sænski leikstjórinn Daniel Espinosa gerir á ensku en þær fyrri voru Safe House sem var frumsýnd 2012 og var einmitt með Ryan Reynolds í öðru aðalhlutverkinu og Child 44 sem var frumsýnd 2015 og mörgum þótti ein af bestu myndum þess árs. Áður hafði Daniel hins vegar slegið í gegn með glæpatryllinum
Snabba cash sem var með Joel Kinnaman í aðalhlutverki.
-Sagan í myndinni og handritið er eftir þá félaga Rhett Reese og Paul Wernick en þeir eiga m.a. að baki handritin að myndunum Zombieland og Deadpool. Þess má geta að næstu myndir þeirra eru einmitt Zombieland 2 og Deadpool 2 sem áætlað er að frumsýna á næsta ári.