Breski leikarinn Richard E. Grant kemur nýr inn í leikarahóp sjöttu seríu Game of Thrones sjónvarpsþáttanna vinsælu, sem gerðar eru eftir sögu George R.R. Martin, samkvæmt því sem breska blaðið The Independent hefur staðfest.
Ekki er vitað hvert hlutverk hans verður en sumir telja að hann muni leika Maester Marwyn eða Lord Redwyne.
Hér er lýsingin fyrir þann leikara sem leitað var að: „Leikhúsleikari ( 55-70 ). Áberandi í fasi. Sérhæfir sig í að leika drukkna hástéttarmenn. Hann hefur sterka viðveru á sviði og er hálfgerður skíthæll utan sviðs.“
Aðrir breskir leikarar sem hafa bæst í leikaralið Game of Thrones upp á síðkastið eru Jonathan Pryce og Ian McShane.