Ennþá í dag eru menn að rífast um hvort Avatar-trailerinn sé með því flottasta sem menn hafa borið augum á í langan tíma eða bara enn eina brelluhátíðin sem líkist tölvuleik. Allavega, þá er ekki ólíklegt að menn fari að ákveða sig betur þegar nýjasti trailerinn kemur út, sem er sagður vera lengri og mun hann víst sýna miklu meira.
Coming Soon segir að þessi nýi trailer (sem er 3 mín. og 30 sek. á lengd) verði kominn í bíó (í Bandaríkjunum a.m.k., erum enn ekki viss hvenær hann dettur inn hingað) þann 23. október. Hann á víst ekki að koma á netið fyrr en 29. október, þótt ég geri alveg ráð fyrir því að margir reyni að gefa hann út í CAM-gæðum.
Þessi stórmynd verður annars heimsfrumsýnd þann 18. desember n.k.

