Fyrsta stiklan fyrir The Woman in Black kynnti til sögunnar drungalegt 19. aldar sögusviðið, en sagði lítið um söguþráð myndarinnar. Ný bresk stikla sem fyrir stuttu lenti á veraldarvefnum bætir aðeins úr því. The Woman in Black er fyrsta verkefni Daniel Radcliffe eftir lok Harry Potter ævintýrisins, og leikur hann hér Arthur Kipps, ungan lögfræðing sem skilur son sinn eftir í London til að ganga frá málum nýlátinnar konu sem bjó í afskekktu þorpi. Hann kemst að því að ekki er allt sem sýnist í bænum, og röð dularfullra slysa og atvika hafa fengið fólk til loka inni börn sín öllum stundum. Hann gistir í húsi látnu konunnar og ró hans fer að raskast er hryllilegir hlutir fara að gerast.
Myndin er byggð á skáldsögu Susan Hill frá 1983, sem þegar hefur verið gerð að sjónvarpsmynd og leikriti. Jane Goldman skrifar handritið, en hún er þekktust fyrir að samstarf við Matthew Voughn á Stardust, Kickass, og X-Men: First Class. Leikstjóri er James Watkins sem áður á að baki hryllingsmyndina Eden Lake frá 2008. Myndin kemur frá hinu breska framleiðslufyrirtæki Hammer Films, en það var endurreist fyrir nokkrum árum og sérhæfir sig í hryllingi. Á sínum fyrri frægðardögum framleiddu þeir m.a. Drakúla myndirnar með Christopher Lee og Peter Cushing, sem teljast klassík. En hér er trailerinn: