Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri Á annan veg, undirbýr nú tökur á nýrri mynd með Birni Thors og Helga Björnssyni í aðalhlutverkum. Tökur eiga að hefjast í lok maí á Vestfjörðum. Verið er að klára fjármögnun á myndinni, sem enn gengur undir heitinu Ónefnt kvikmyndaverkefni, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.
„Við erum á lokasprettinum í fjármögnunarferlinu sem ég hef fulla trú á að klárist fljótt,“ segir Hafsteinn í samtali við blaðið.
Huldar Breiðfjörð skrifar handrit myndarinnar sem ekki hefur enn fengið endanlegt nafn. Myndin fjallar um ungan mann sem býr í litlum smábæ á Vestfjörðum og fær föður sinn sem hann þekkir lítið, í heimsókn. Með hlutverk feðganna fara þeir Björn og Helgi. „Við erum í breytingarferli varðandi titil myndarinnar svo ég kýs að kalla hana Ónefnt kvikmyndaverkefni eins og stendur. Við stefnum á að hefja tökur í lok maí,“ segir Hafsteinn í Fréttablaðinu, en hann segir tón myndarinnar svipa til Á annan veg að því leytinu til að þetta „er svona dramakómedía.“
Framleiðendur myndarinnar eru þeir Þórir Snær Sigurjónsson og Sindri Kjartansson.
Á annan veg var fyrsta kvikmynd Hafsteins í fullri lengd og fékk afar góðar viðtökur, hér heima sem og á erlendum kvikmyndahátíðum. Búið er að endurgera myndina í Hollywood undir heitinu Prince Avalanche þar sem Paul Rudd og Emile Hirsch fara með aðalhlutverkin