Kvikmyndaleikarinn Harrison Ford sagði franska dagblaðinu Le Figaro að ný Indiana Jones saga væri að taka á sig mynd. „Steven Spielberg, George Lucas og ég höfum náð samkomulagi um hvaða ævintýri Indiana Jones muni lenda í næst, hinu fimmta í röðinni, og George er að vinna í málinu. Ef handritið verður gott, þá mun ég fara í Indiana Jones búninginn aftur með ánægju,“ sagði Ford.
Fjórða myndin, Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull, var frumsýnd 28. maí 2008 og þénaði 786,6 milljónir Bandaríkjadala um allan heim. Kostnaður við myndina var 185 milljónir dala. Það er því ekkert skrýtið að menn freistist til að gera enn eina framhaldsmynd!

