Ný gagnrýni um Killers og glænýtt Bíótal

Tómas Valgeirsson gagnrýnandi kvikmyndir.is hefur fellt dóm sinn um myndina Killers, en dóminn má finna hér á undirsíðu myndarinnar.
Tómas er ekkert yfir sig hrifinn en er þó jákvæðari í garð myndarinnar en einn af notendum kvikmyndir.is, Ólafur Þór Jónsson, sem gaf myndinni aðeins 2 stjörnur í sinni umfjöllun. Tómas gefur myndinni 5 stjörnur af tíu mögulegum. Í umsögn sinni um myndina segir Tómas meðal annars um aðalleikarana: „Ashton Kutcher og Katherine Heigl (þarf hún aaaaalltaf að vera svona „uptight?“) reyna alltof mikið á sig til að geta verið fyndin, en ef ég þyrfti að velja á milli þeirra þá myndi ég segja að Kutcher hafi staðið sig betur í því.“

Nýtt Bíótal

Eins og notendur kvikmyndir.is þekkja lætur Tómas Valgeirsson sér ekki nægja að skrifa gagnrýni, hann heldur einnig úti kvikmyndaþættinum Bíótal hér á kvikmyndir.is ásamt félaga sínum Sindra Grétarssyni. Út er komið nýtt bíótal þar sem Tómas fjallar um myndina Nightmare on Elm Street, endurgerðina. Sindri er fjarri góðu gamni í þetta sinn.

Bíótalið er stórskemmtilegt og eitthvað sem enginn kvikmyndaunnandi ætti að láta fram hjá sér fara. Meðal þess sem Tómas segir er að myndin sé ekkert „scary“ sem hlýtur að vera framleiðendum myndarinnar nokkuð áfall, enda um hryllingsmynd að ræða. Svo styttist í Bíótalsþætti fyrir Killers og Eclipse.

Skoðið bíótalið hér eða í spilaranum á forsíðunni.