Ný stikla fyrir nýjustu Batman myndina, The Dark Knight Rises, verður sýnd á undan The Avengers. Þetta staðfestir vefsíðan Nolanfans.com, en hún birtir skjáskot frá vefsíðu Warner Bros sem sýnir hvaða stiklur verði sýndar á undan myndinni. Skjáskotið má sjá hér fyrir neðan (smellið á myndina fyrir betri upplausn).
Skjáskotið sýnir að sjálfsögðu aðeins stöðu mála vestanhafs, en það er engin ástæða til annars en að áætla að sama gildi um sýningar í kvikmyndahúsum í Evrópu. Stiklan verður sýnd á undan myndinni frá og með 4.maí, en þá er myndin frumsýnd í Bandaríkjunum.
The Avengers kemur í bíó á Íslandi þann 27.apríl næstkomandi (á föstudaginn). Enn hefur ekki borist staðfesting á því að stiklan verði sýnd hér á landi við frumsýningu myndarinnar. The Dark Knight Rises kemur svo í kvikmyndahús á Íslandi 25.júlí.
Það er spurning hvort stiklan verði sýnd þegar The Avengers verður frumsýnd hérna á Íslandi. Ég ætla allavega að krossleggja fingur og vona að hún komist til Íslands fyrir Nexus forsýninguna (djöfulsins óskhyggja er þetta í manni). Ef þetta er ekki meiri ástæða fyrir því að sjá The Avengers í bíó þá veit ég ekki hvað..