Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



The Mothman Prophecies
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Vel unnin mynd um afskaplega margútjaskað efni. Fyrirboðar og andatrú er snar þáttur í engilsaxnesku menningarlífi í mörghundruð ár, meira að segja Shakespear notar þetta. Ég verð að viðurkennna að mér hundleiddist þessi mynd. Undanfarið hefur maður verið að sjá aðhandanmyndir, með svolítið nýjum blæ, en þessi er ótrúlega þunn í roðinu. Einkennilegt má það vera að jafn jafn geðslegur leikari og Richard Gera skuli aldrei leika í mjög djúpum myndum, hann er kanski ekki mjög djúpur sjálfur?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Murder by Numbers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd kemur þægilega á óvart. Tekið er upp þema úr Glæp og refsingu Dostoévskiís, um unga manninn sem fremur glæp af heimspekilegum ástæðum. Hér eru þeir Raskolnikov og Svidrigailov, ungi maðurinn og fulltrúi hins illa, settir fram í gerfi tveggja vina, sem hafa komist að því í þenkingum sínum að raunverulegt frelsi snúist um að gera það sem manni sýnist, til dæmis að drepa menn og komast upp með það. Haldið er áfram myndina út að vitna í bókmenntir og heimspeki, sem gerir hana einstaka. Til dæmis er sett á svið Prisoners dilemma (sjá til dæmis http://www.princeton.edu/mdaniels/PD/PD.html), sem er raunar kippt niður á jörðina úr óravíddum leikjafræðinnar með aðgerðum lögmanns morðingjanna. Óvenjulegt í sumar að sjá mynd sem er ekki fyrst og fremst ætluð sauðheimskum fíflum, þótt þau geti áreiðanlega líka haft gaman af þessari mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Enemy at the Gates
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sérlega ánægjuleg mynd fyrir unnendur góðra stríðsmynda, sem gerist á bökkum Volgu, þar sem áin Zaritsa fellur í hana, en þar stendur sú borg sem hét upphaflega eftir þveránni, Zaritsín, en var um tíma kölluð Stalíngrad og heitir nú Volgograd. Bakgrunnur myndarinnar er hin fræga orrusta um Stalíngrad, þar sem Rauði Herinn lokaði inn í herkví meira en 250.000 þjóðverja. Þessi tangarsókn er trúlega einhver sú stórbrotnasta sem um getur, var hugmynd Yeremenko hershöfðingja og Nikita Segrgeievits Khrútsjovs. Zukov marskálkur vísaði hugmyndinni fyrst á bug sem rugli, en Stalín kunni að meta hana. Kvikmyndin hefst þegar Nikita Sergeievits kemur sem nýr pólitískur kommissar til Stalíngrad. Trúlega er það fært í stílinn, þegar kommissarinn sem hann leysir af er látinn skjóta sig, en ekki hefur mér tekist að finna hans nafn. Upphafssenurnar í myndinni, þegar verið er að koma liðsafla yfir Volgu til Stalíngrad, eru mjög trúverðugar, sjá til dæmis bók John Ericson: “The road to Stalingrad”. Aðferðum og búnaði Rauða Hersins er vel lýst í myndinni og ekki er reynt að gera þetta stríð að uppgjöri góðu- og vondukallanna. Aðaláherslan er á skyttuna Vassilí Zaitsev og einvígi hans við Prússneskan majórinn König, sem ekki er froðufellandi nasisti heldur hermaður. Þótt þessi mynd sé að sjálfsögðu ekki gallalaus og því ekki unnt að skipa henni á bekk með bestu stríðsmyndum eins og “Full metal Jacket” Kubricks og “Ití í smotrí” Elms Klimovs, þá hefur hún þó alla vega sameiginlegt þessum myndum að troða ekki upp á mann amerískri þjóðrembu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei