Nolan-þema hjá Sambíóunum í maí

Þann 4. maí næstkomandi munu Sambíóin opna aftur kvikmyndahúsið í Álfabakka og verður úrvalið blanda af nýlegum og eldri titlum. Enn verður fylgt eftir þeim ráðstöfunum að hafa tveggja metra fjarlægð á milli bíógesta okkar og verða ekki fleiri en 50 manns inni í sölum.

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að kvikmyndaverið Warner Bros og Samfilm ætli að bjóða fólki velkomið í bíó aftur með því að taka upp sýningar á þekktum stórmyndum. Sú fyrsta er ein vinsælasta grínmynd allra tíma á Íslandi, The Hangover. „Teljum við að það sé hollt og gott að koma okkur í rétta hláturgírinn, á þessum skrítnu tímum,“ segir í tilkynningunni.

Til stendur einnig að bjóða áhorfendum upp á eldri katalóg kvikmynda virta leikstjórans Christopher Nolan. Frá 15. til 31. maí verða þá sýndar myndirnar Inception, Interstellar, Batman Begins, The Dark Knight, The Dark Knight Rises og Dunkirk.

Verður þarna sérstakt Nolan-þema á ferð hjá Sambíóunum í tilefni nýjustu stórmyndarinnar hans, Tenet, sem frumsýnd verður næstkomandi júlí.