Það eru reyndar liðin núna 2 ár síðan Robert Rodriguez gerði seinast bíómynd (sú síðasta var náttúrulega Planet Terror), sem á hans mælikvarða er langur tími, enda hefur hann hingað til verið þekktur fyrir að geta pungað út hátt í tveimur myndum á ári, og fyrir sama og engan pening.
Rodriguez bætti við enn einni mynd listann sinn af myndum sem hann segist ætla að gera á næstunni (hvort sem það tengist framleiðslu eða leikstjórn). Það mun vera „re-boot“ á Predator-seríunni og leikstjórinn segist ætla að krydda þetta með öðruvísi formúlum en við höfum hingað til séð frá þessum fyrirbærum og mun nýja myndin heita í fleirtölu Predators. Það verður eflaust töff að sjá hvað hann gerir með nýju hönnunina á skepnunum.
Rodriguez segist ætla að framleiða og leikstýra Predators. Hann bætti því einnig við í viðtali í gær að hann muni gera Machete-myndina, sem byggð er á gervi-trailernum sem sýndur var á undan Planet Terror. Svo er enn planið að gera vísindaskáldsögu sem nefnist Nervewrackers ásamt leikinni kvikmyndaútgáfu af The Jetsons-þáttunum og – auðvitað, það sem flestir bíða eflaust spenntastir eftir (þ.á.m. ég!) – Sin City 2.
Þetta er slatti af verkefnum og ekki er enn vitað hvað hann ætlar að gera fyrst. Sin City 2 á víst að vera tilbúin fyrir tökur. Handrit og undirbúningur er klár nema Miramax tapaði einkaréttinum á myndasögunum eftir að hafa ekki gert neitt með efniviðinn í ágætan tíma. Rodriguez leitast nú eftir fjármagni fyrir þá mynd og ef gengur vel er aldrei að vita nema ræman komi í bíó á næstu misserum. Gleymum ekki að fyrri myndin var gerð á einhverjum 6 mánuðum!

