Nikulás litli opnar franska kvikmyndahátíð

Alliance Française í Reykjavík, Sendiráð Frakklands á
Íslandi, Sendiráð Kanada á Íslandi og Græna ljósið standa fyrir franskri
kvikmyndahátíð, sem verður haldin í 10. sinn dagana 15. til 28. janúar í
Háskólabíói.

Opnunarmynd frönsku kvikmyndahátíðarinnar í ár kemur allri
fjölskyldunni til að brosa, en það er gamanmyndin “Le Petit Nicolas” eða
“Nikulás litli”, sem var langvinsælasta kvikmyndin í Frakklandi 2009, með yfir
5 milljónir áhorfenda. Myndin er byggð á samnefndri persónu sem Sempé og
Goscinny, höfundur Astérix, bjuggu til.

Í fréttatilkynningu frá Alliance Francaise í Reykjavík segir að fjölbreytni hafi alltaf verið lykilorð Frönsku
kvikmyndahátíðarinnar, og á því verði engin undantekning í ár. Boðið verður
upp á ýmsar tegundir kvikmynda: gamanmyndir (Nikulás litli, Ljúfa Paloma, Það
var ekki ég, ég sver það), drama (Verndargripurinn, Morðkvendi), glæpamyndir
(Edrú, Góð lögga, vond lögga), sögulega mynd (Louise Michel) og heimildamynd
(Frumgráturinn). „Fjölbreytnin er ekki síður landfræðileg, því franskar
kvikmyndir einskorðast síður en svo við landamæri Frakklands: þannig verða tvær
kanadískar myndir í boði á hátíðinni og ein mynd eftir alsírskan leikstjóra. En
fjölbreytnin kemur líka fram í því að þær spanna allan skalann, allt frá myndum
fyrir kvikmyndaunnendur eins og “Hjörtun” eftir Alain Resnais og “Edrú” eftir Olivier
Assayas yfir til “Nikulásar litla” og “Það var ekki ég, ég sver það” sem höfða
til breiðari áhorfendahóps, jafnvel allrar fyrir alla fjölskyldunnar. Semsagt,
öðruvísi kvikmyndir fyrir alla á Franskri kvikmyndahátíð, og allar með enskum
texta,“ segir í tilkynningunni.

Í ár verður boðið upp á þá nýbreytni að sýna myndirnar
einnig utan höfuðborgarsvæðisins, því þær verða sýndar í Borgarbíói á
Akureyri, og hefjast sýningar þar þann 5. febrúar.

Nánari upplýsingar og sýnishorn úr myndunum er
að finna á vef Alliance Française, http://www.af.is,