Night Of leikari í lygavef – Atriði

Leikarinn Riz Ahmed hefur vakið töluverða athygli fyrir leik sinn í bandarísku HBO spennuþáttunum The Night Of, en þeir eru byggðir á BBC þáttaröðinni Criminal Justice.  Í þáttunum leikur Ahmed á móti O Brother, Where Art Thou? leikaranum John Turturro.

Ahemed sló í gegn í gamanmyndinni Four Lions, en margir muna sjálfsagt eftir honum í hinni eftirminnilegu Nightcrawler, þar sem hann lék tökumann fyrir persónu Jake Gyllenhaal.

Von er á honum í bíó í desember í Rogue One: A Star Wars Story, auk þess sem má berja hann augum í bíó í dag í Jason Bourne.

riz

En nú í haust kemur hann við sögu í tveimur myndum á aþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada, TIFF, og í vikunni var birt fyrsta brotið úr annarri þeirra, City of Tiny Lights, þar sem Ahmed fer með aðalhlutverkið.

Myndin, sem er eftir leikstjóra Dredd, Pete Travis, fjallar um rannsóknarlögreglumann í London, sem Ahmed leikur, sem flækist inn í mannshvarfsmál, þar sem stúlka er týnd, og flókinn lygavefur spinnst upp.

Í myndbrotinu sjáum við Ahmed að störfum, þar sem hann heimsækir fyrrum kærustu sína á krána.

Með önnur helstu hlutverk í myndinni fara Cush Jumbo, James Floyd, Billie Piper og Roshan Seth.

City of Lights verður frumsýnd á TIFF 12. þessa mánaðar.