Næstu James
Bond-mynd, þeirri 23. í röðinni, hefur verið frestað. Þetta tilkynntu
framleiðendur myndarinnar í gærmorgun, mörgum að óvörum. Undirbúningur
myndarinnar verður því settur á ís guð veit hvað lengi, en
Óskarsverðlaunaleikstjórinn Sam Mendes hafði verið ráðinn til verksins og var
undirbúningur í fullum gangi þegar tilkynningin kom út.
Ástæðan er
sú að MGM, fyrirtækið sem á dreifingarréttinn að myndinni, er í miklum
fjárhagserfiðleikum og er þessar vikurnar í söluferli, sem býr til mikla óvissu
um framtíð bæði fyrirtækisins og þeirra mynda sem það á. Því ákváðu framleiðendurnir Michael G. Wilson og Barbara Broccoli að stöðva undirbúning myndarinnar og veit
því enginn hvenær framleiðsla fer aftur af stað eða þá hvenær hún kemur út.
Hins vegar
verður að teljast öruggt að myndin mun einn daginn líta dagsins ljós, enda nokkuð örugg tekjulind, þó það sé
næsta víst að þetta mun setja þónokkuð strik í reikninginn þegar kemur að
leikaravali í myndina, fyrir utan það hvort Mendes muni geta gert myndina. Rachel Weisz hafði til dæmis verið í viðræðum um að leika illmenni í myndinni,
en eins og með annað er alls óvíst hvort af því getur orðið.
Við
Bond-aðdáendur verðum því bara að bíða og vona…

