Næsta mynd Tom Cruise?

Það þykir alltaf fréttnæmt í Hollywood, þegar dvergvaxna ofurstirnið í háhæluðu skónum Tom Cruise, tekur að sér nýtt verkefni. Þrátt fyrir aðeins meðalgóðar viðtökur myndarinnar Vanilla Sky, er hann ekkert á þeim buxunum að færa sig yfir í eitthvað söluvænna, heldur er hann búinn að kaupa kvikmyndaréttinn að skáldsögunni The Bridge. Sú bók, sem skrifuð er af skrípateiknaranum Doug Marlette, fjallar um skrípateiknara einn sem neyðist, ásamt fjölskyldu sinni, til þess að flytja aftur á æskuslóðir hans í Norður-Karólínu eftir að hann er rekinn úr starfi sínu í New-York. Þau flytja á æskuheimili hans, og þar fer hann smám saman að vinna í því að kljást við fortíð sína. Handrit myndarinnar er skrifað af Mark Andrus ( As Good as it Gets ), og myndin verður framleidd af framleiðslufyrirtæki Cruise en það heitir C/W Productions. Cruise mun sjálfur leika aðalhlutverk myndarinnar, ef af henni verður.